Amstur dagsins
Annar janúar.
Frostið hefur vikið fyrir plúsgráðum. Slabbið umvefur fæturna og kalt vatn seytlar í gegnum skótauið. Yndislegt. Arkandi blautan snjó í strigaskóm hef ég mig á pósthúsið fyrir rest. Þar inni finnst mér vera óvenju margir. Er fólk að skila gjöfum? Ég hef aldrei verslað á netinu og veit ekkert hvernig maður skilar gjöfum þaðan. Er það hægt yfir höfuð?
Djúpt sokkinn í þessar hugsanir ranka ég við mér. Röðin er komin að mér og gjaldkerinn gefur mér merki. Eða kallast þeir þjónustufulltrúar? Það er myndarleg kona sem afgreiðir mig. Líklega á mínum aldri, rétt rúmlega fimmtug. Ég sé engan hring, líklega skilin eins og ég.
Það er múr á milli okkar. Við erum ekki manneskjur, við erum leikarar í leikritinu "amstur dagsins". Ég er viðskiptavinur og hún starfsmaður. Við þekkjumst ekki og því skipar handritið okkur að bjóða góðan dag, kannski brosa ögn. Ég á að segja hvað ég vill og hún afgreiðir mig. Þannig á það að vera. Vanalega fylgi ég handritinu upp á staf og punkt. Ég tala ekki einu sinni um veðrið eða annan tittlingaskít eins og sumir. Það krefst spuna. Ég dáist að þeim sem geta spunnið í amstri dagsins.
En nú er mikið í húfi. Hvað get ég sagt til að brjóta niður þennan múr? Hvaða galdrastaf get ég notað sem sviptir hulunni af okkur báðum svo við fáum séð hvort við eigum séns saman sem manneskjur? Tíminn er naumur, ég giska á að ég hafi um þrjár sekúndur eftir að við höfum heilsast og áður en þetta verður besta lagi vandræðalegt augnablik eða í versta falli slæm minning að eilífu greipt í heila mér.
Ein.
Fokk, hvað á ég að segja?
Tvær.
Ég er alveg tómur.
Þrjár.
"Hvað heitirðu?"
Hvað heitirðu? Hversu fáránlegt? Ég klúðraði þessu gjörsamlega.
"Ég heiti Anna, en þú?"
Okei, okei, ég get unnið með þetta...