Er ég virkilega svona heimskur?

Umræður um fjárlagafrumvarp fóru fram í dag. Vitaskuld mikilvægt efni. En stundum hef ég bara ekki alveg tíma til að fjalla um slík mál. Því veldur fyrst og síðast sú staðreynd að ég sit ekki á þingi né er ég þingfréttaritari. Ég læt aðra um það. Fyrir það fá þeir víst greitt.
En hvað um það. Vetur hefur leikið mildum höndum um borgarbúa hingað til. Hve lengi það endist veltir maður fyrir sér, en að ástæðulausu því engu ræður maðurinn þar um. Sumir geta þó reynt að spá, til dæmis veðurfræðingar. En ég er ekki slíkur fræðingur. En fræðingur er ég þó, vélaverkfræðingur.
Því las ég las í greininni "On the growth of steam droplets formed in a Laval nozzle using both static pressure and light scattering measurements", það er stundum partur af starfi mínu að lesa svo hræðilega leiðinlegar greinar. Svo lítið skildi ég í henni á köflum að ég datt í nett þunglyndi og sjálfsfyrirlitningu. Er ég virkilega svona heimskur? spurði ég sjálfan mig. Svo mundi ég að einhvern tímann fyrir allstuttu var mér sagt að svona hugsanir eru lítið gagnlegar. Best væri að dvelja sem minnst í þeim og iðka umburðarlyndi og hafa samúð með sjálfum sér, sýna þolinmæði og einfaldlega gera sitt besta. Þetta kæmi allt með tímanum, eða ekki, og þá er lítið við því að gera.
Við erum öll í sama bátnum, föst í eigin höfði.