Geðrof Feðranna

03/25/2020

Covid nítján læðist óséð inn í hugsanir mínar og hreiðrar um sig. Vírusinn sjálfur er þó fjarri góðu gamni og herjar á eitthvað annað fólk út í bæ. Enn um sinn.

Ég hef smitast í gegnum tölvuskjáinn, mest í gegnum RÚV og BBC. Vírusinn hefur stökkbreyst og stjórnar nú hegðun fólks sem hefur nú tekið upp á því að vera heima hjá sér öllum stundum. Veitingastaðir loka. Vísitölur falla.

Tímabundið ástand segjum við í kapp við hvort annað og rembumst við að líta á björtu hliðarnar. Ég loka augunum og finn að mér er pínu illt í hálsinum og svei mér þá ef ég þarf ekki að hósta líka. Hjartað tekur auka slag og ég sé sjálfan mig í anda andandi með hjálp öndunarvélar. Ég hugsa næstum því um guð og bið hann um hjálp.

En þetta lýsir þó mest hugsunum mínum í síðustu viku. Nú er ég þó nokkuð skárri. Hugsanir mínar hafa róast og leiða mig sjaldnar um smitsjúk stræti. Þökk sé sjálfskipuðu fjölmiðlabanni. Eða fjölmiðla takmörkun öllu heldur. Ég verð nú að fylgjast aðeins með. En bara tvisvar, þrisvar á dag. 

Raggi
All rights reserved 2023 - allar ljósmyndir eru teknar af höfundi eða konu hans. Allur höfundarréttur á myndum og texta áskilinn.
Rafpóstur: larusson.ragnar hjá gmail.com 
Powered by Webnode
Create your website for free! This website was made with Webnode. Create your own for free today! Get started