Hafnfirsku jólasveinarnir

01/03/2023

Þriðji Janúar og frostið er komið aftur. Í Hafnarfirði býr Vilborg, átta ára. Hún situr við eldhúsborðið, borðar morgunmat og hugsar um hve jólasveinarnir voru góðir við hana þetta árið. Þó kemur það henni ekki mjög á óvart því hún hefur sýnt af sér hina bestu hegðun allan desembermánuð þrátt fyrir að hafa ítrekað orðið fyrir óréttlæti í viðskiptum við bróður sinn. Hann getur verið svo mikill asni.

"Ertu spennt fyrir Þrettándanum, Vilborg mín?" spyr pabbi hennar.

"Já, já. Hvað er aftur þrettándinn?" svarar hún.

"Þá eru jólin búin og síðasti jólasveinninn fer heim," svarar pabbi.

Vilborg situr hugsi um stund en segir svo, "fara þeir aftur í Esjuna til mömmu sinnar?"

"Nei, hafnfirsku jólasveinarnir fara í Helgafell," segir pabbi og brosir.

"Það meikar ekkert sens. Af hverju eru aðrir jólasveinar í Hafnarfirði?" spyr Vilborg.

"Já það er nú það. Ég bara veit það ekki," svarar pabbi.

Vilborg íhugar þetta á meðan hún klárar morgunmatinn.

Í frímínútum segir hún Traðmari vini sínum frá hafnfirsku jólasveinunum og Helgafelli. Traðmar segist vita allt um þetta og er meira að segja hissa á því að Vilborg viti þetta ekki. En hann segir henni líka að það sé allt í lagi, hún getur séð þá með eigin augum ef hún vill. Hann veit hvernig þau geti farið upp í Helgafell í seinni frímínútum.

"Þarna er hann, sjáðu hvað stendur," segir Traðmar og bendir á stóran bíl.

Þau höfðu laumað sér burt af skólalóðinni í seinni frímínútum.

"Helgafell ehf.," les Vilborg upphátt af bílnum.

"Já, þessi bíll fer þangað. Komum," segir Traðmar og stekkur af stað.

Vilborg nær ekki að mótmæla og eltir Traðmar inn í bílinn. Hann lokar á eftir þeim. Það er koldimmt inni. Vilborg hvíslar einhverju að Traðmari sem sussar á hana. Skyndilega heyra þau að bíllinn er ræstur og tekinn að hreyfast.

Um kvöldið hefur ekkert spurst til þeirra síðan í seinni frímínútum. Lögreglan ræsir út björgunarsveitir.

Raggi
All rights reserved 2023 - allar ljósmyndir eru teknar af höfundi eða konu hans. Allur höfundarréttur á myndum og texta áskilinn.
Rafpóstur: larusson.ragnar hjá gmail.com 
Powered by Webnode
Create your website for free! This website was made with Webnode. Create your own for free today! Get started