Hrútur

01/17/2023

Mánudagurinn sextándi janúar. Hrútur gengur í græna jakkanum sínum inn á skrifstofu Hrúts og Hafsteins ehf. "Gleðilega vinnuviku gamli gamli" segir Hrútur við Hafstein.

"Græni jakkinn," segir Hafsteinn áhugalaus og lítur daufum augum upp af tölvuskjá.

"Já, nú má ekkert klikka Haffi Haff," svarar Hrútur hress.

"Hvenær koma þau?" spyr Hafsteinn.

"Bara eftir nokkrar mínútur."

"Og ertu tilbúinn?"

"Auðvitað er ég tilbúinn," segir Hrútur æstur. "Hvað er þetta maður? Sko. Ég hamra bara á því sem við öll viljum, sem er að pota þessu húsi upp, og það gerist ekkert án Hrúts og Hafsteins. Það er bara þannig. Og við höldum okkur við verðið sem við ræddum síðast. No compromise. Við verðum að lifa líka, ekki satt? Það er búið að margræða og þrasa um smáatriðin, nú er kominn tími á einhverja niðurstöðu."

"Græni jakkinn," endurtekur Hafsteinn.

"Græni jakkinn," segir Hrútur og kinkar kolli.

--

Sólveig situr ein í myrkvuðu eldhúsi og potar á skjá. Gömul klukka slær sex slög og á sjötta slagi opnast útidyrnar fram á gangi. Inn gengur Hrútur. "Hrútur alls fagnaðar," segir hann og leggur tösku á eldhúsborðið. Sólveig gengur að ísskápnum og tekur út afganga.

"Ætlarðu ekkert að spyrja hvernig gekk?" segir Hrútur.

"Hvernig gekk?" segir Sólveig þurrlega.

"Græni jakkinn klikkar aldrei, það er bara þannig," svarar Hrútur ánægður með sig.

"Ókei," segir Sólveig og tínir til fleira úr ísskápnum. "Hrefna hringdi í mig áðan," heldur hún áfram. "Þú manst eftir henni ekki satt? Hún er dóttir þín. Hún sagðist ekkert ná í þig. Hún vill fá að vita hvort hún megi fara með stelpunum í bústað. Hún sagði að mamma sín leyfi það."

"Já alveg rétt, steingleymdi. Sko, ekki séns. Ég veit alveg hvað gerist í svona ferðum. Ég skal tala við þær og jarða þetta mál í eitt skipti fyrir öll," segir Hrútur ákveðinn.

"Hrútur," segir Sólveig og dæsir. "Nennirðu að vera ekki svona mikill .... hrútur."

En Hrútur hlustar ekki, hann bara gerir. 

Raggi
All rights reserved 2023 - allar ljósmyndir eru teknar af höfundi eða konu hans. Allur höfundarréttur á myndum og texta áskilinn.
Rafpóstur: larusson.ragnar hjá gmail.com 
Powered by Webnode
Create your website for free! This website was made with Webnode. Create your own for free today! Get started