Krossfeldi

01/08/2023

Áttundi janúar. Skaplegt veður. Hægur vindur, skýjað, hiti þrjár gráður. Það er sunnudagur og upp í sófa í húsi við Vesturvang liggur maður og dreymir. Maðurinn er gráhærður með vömb, klæddur skyrtu og dökkbláum gallabuxum. Við fætur hans liggur aldraður Cavalier hundur og hrýtur í takt við húsbóndann. Uppá vegg hangir Kristur á krossi. Maðurinn rumskar og lítur á Krist, hagræðir púðanum og sofnar aftur.

Gamall heimasími hringir. Hundurinn geltir og maðurinn stendur upp.

"Hvaða, hvaða. Svona Moli minn, ekki þennan æsing," segir hann og gengur að símtólinu.

"Halló."

"Góðan dag er það Kormákur Kristmundsson feldskeri?" 

"Það er hann."

"Ég hringi í þig út af dóttur þinni."

"Hvað með hana?"

"Okkur hefur borist kvörtun."

"Og hverjir eru þið?"

"Auðvitað, afsakaðu. Ég hringi frá Draumhúsum, hún leigir af okkur íbúð."

"Nú? Hva, býr hún ekki í húsinu sínu lengur? Og af hverju eruð þið að tala við mig?"

"Við höfum verið að reyna að ná í hana en það gengur ekkert. Ég er að vona að þú getir komið skilaboðum til hennar."

"Yfir hverju var verið að kvarta?"

"Vondri lykt úr íbúðinni, hún heldur víst kanínur og þær eru nokkuð margar. Það er auðvitað þvert á reglur félagsins."

Kormákur þegir um stund en segir loks "Nú já. Ég skal reyna að ná í hana og segja henni að hafa samband við ykkur sem fyrst."

Hann leggur tólið á og gengur að eldhúsglugganum. Fyrir ofan gluggann hangir annar Kristur á krossi. Kormákur lítur á úfið hraunið fyrir utan bakgarðinn. Hann dreymdi að hraunið hefði bráðnað og húsið flotið á því. Hundurinn hafði tryllst og stokkið í hraunið og fuðrað upp á augabragði. Einmitt þá hafði síminn hringt. 

Hann gengur aftur að honum, tekur upp tólið og slær inn númer.

"Hæ elskan mín, hvar er að frétta? Já, já. Akkurat, gott, gott. Heyrðu, ég var að pæla. Hvaðan færðu þessi kanínuskinn sem þú flytur inn fyrir mig?" 

Raggi
All rights reserved 2023 - allar ljósmyndir eru teknar af höfundi eða konu hans. Allur höfundarréttur á myndum og texta áskilinn.
Rafpóstur: larusson.ragnar hjá gmail.com 
Powered by Webnode
Create your website for free! This website was made with Webnode. Create your own for free today! Get started