Nýársmorgun
Nýtt ár hófst á læknavaktinni. Ég kom þangað sem sjúklingur.
Reykmökkurinn frá rakettum næturinnar var fokinn á haf út. Kyrrðin var fullkomin í myrkrinu og snjónum. Ég held ég hafi aldrei upplifað áttunda tíma nýársdags allsgáður. Yfirleitt sofandi eða fullur.
Hvolpurinn hafði í morgunæsingnum rist á mér eyrað með hvössum hvolpatönnunum. Það hætti ekki að blæða. Ég vakti konuna og hún teypaði sárið, svo rauk ég út í bíl hún varð eftir með voffa. Þetta var ekki honum að kenna. Ég fyrirgef honum því hann veit eigi hvað hann gjörir. En fyrirgef ég sjálfum mér? Ég æsti hann upp og beygði mig niður og veitti honum aðgang að eyrum mínum. Hann hefur smekk fyrir þeim.
Ég hafði séð fyrir mér algjöra ringulreið á læknavaktinni. Fólk ofurölvi með opin beinbrot og höfuðsár eftir byltu eða afsprungna fingur eftir flugeld. En auðvitað var það ekki svo. Læknavaktin er ekki bráðamóttaka. Þarna voru bara mömmur með veika krakka og svoleiðis.
Á biðstofunni sat hjá mér eldri maður, svona á áttræðisaldri. Hann spurði mig hvað hefði gerst og ég sagði honum frá hvolpinum. Hann sagðist hafa átt hvolp fyrir tuttugu árum. "Hann er dauður núna, hundurinn" sagði hann. "Konan er líka dauð, dáin, afsakaðu," hélt hann áfram. Ég vissi ekki hvað ég ætti að segja þannig að ég kinkaði bara kolli og reyndi að sýnast skilningsríkur. Eyrað var að drepa mig og ég fann að það blæddi enn úr því. Kannski hefði ég átt að fara á bráðamóttökuna?
Við þögðum, maðurinn og ég, en svo sá ég að númerið á miðanum hans var komið á skjáinn.
Röðin var komin að honum.
Ég hnippti í hann til að láta vita. Ekkert svar. Ég hnippti aftur og hann féll í gólfið. Hann hafði dáið við hliðina á mér.
Þannig hófst nýtt ár. Á hljóðum dauða gamals manns sem saknaði konu og hunds.