Pétursskip

Skata skal það vera á morgun lagsmaður. Þvílíkur munaður að éta þetta dýr. Sérstaklega þegar það hefur verið dautt um hríð og fengið að rotna einhvers staðar í nokkrar vikur. Namm, namm og smjatt, smjatt. Maður fær vatn í munn.
Skatan gýtur pétursskipum, eða péturspungum. Hvaða Pétur var það? Jú, auðvitað Pétur postuli. Allt er það nú hugmyndaflugið. Bara opna biblíuna og finna einhvern góðan postula til að nefna þennan hrognapung. Ég er svo aldeilis. Jæja, en hvað um það. Ég mæli með að gúgla pétursskip, þau eru fjandi flott í laginu. Náttúran er undur og við erum hluti þess. Eins og Fóstbræður sungu: "ég er furðuverk".
Veður var fínt í dag. Kalt en fínt og ekki skemmir að nú fer sól að hækka á lofti. Því fer ekki fjarri að ég hafi fundið það á mér í dag. Svei mér þá og sei sei já. Hrikalega sem maður er þó farinn að bölva þessum snjó. Ég hef enga þolinmæði fyrir því að arka þetta hrat sí og æ. En nú hef ég ekkert meira að skrifa þetta kvöldið. En betra er að skrifa eitthvað en ekkert. Það er mitt lífsmottó. Jafnvel þó ég hafi ekkert að segja. Sumir eru vissulega á móti slíkri hegðun og finnst best gert að þegja þegar svo er búið, og fer ég bráðlega að gera það. Það er að segja, að þegja.
Jólaös dagsins hefur gjörsamlega þurrausið úr mér alla góða hugsun og er bælið nú það eina sem kemst að í huga mér. Niður með vælið og upp með bælið segi ég þá, góða nótt.