Raunveruleikinn
Tuttugasti og þriðji janúar. Ég vappa til vinnu minnar á dimmum mánudagsmorgni. Kaldur vindurinn er beint í fangið en ég er í sæmilegu skapi þrátt fyrir allt og allt. Í eyrum ómar eitthvert erlent hlaðvarp um stóru málin - lífið sjálft. Niðurstaðan: Raunveruleikinn felur sig. Skynfærin skynja vara neitt af því sem er. Minnið man varla neitt af því sem var. Hugurinn sér varla neitt af því sem verður. Sannleikurinn, alltaf utan seilingar. Allt sem við gerum og hugsum er dýrslegt viðbragð við áreiti sem við skilum ekki nema í takmörkuðu samhengi.
Er það þess vegna að fólk trúir á guð? Enginn skilningur og ekkert samhengi.
Ég kem við á Súfistanum og panta einn rjúkandi latte til að taka með mér síðasta spölinn. Ég geng aftur út á Strandgötuna með latteinn í pappamáli. Vindinn hefur lægt þessa stuttu stund sem ég var inni. Fyrir utan Bæjarbíó hinu megin götunnar situr hundur með svartan felld og hvítan blett á trýninu. Hann hunsar eitthvað út í loft og rennir til mín rólegum augum. Ég staldra við og fylgist með honum. Hann heldur sínum mjúku augum á mér. Ég verð óþægilega var um mig. Á hvað er þessi hundur að góna? Af hverju er hann svona rólegur? Rólegir hundar stara ekki á ókunnugt fólk. Það gera hræddir og æstir hundar. Amma sagði mér eitt sinn að sum dýr sjá betur og meira en önnur. Hvað sér þessi hundur? Hún sagði líka að hundar geti séð þegar fólk er dauðvona. Er ég dauðvona? Ég hef reyndar verið frekar orkulaus undanfarið. Jafnvel móður þegar ég geng upp stigann. Hlandið úr mér hefur líka freytt óvenju mikið. Eru nýrun að gefa sig? Nei, hvaða vitleysa er þetta.
Ég held áfram göngu minni suður Strandgötu. Upp eftir Linnetsstíg kemur blár Range Rover á fleygiferð og keyrir næstum því á mig. Brjálæðingur, hugsa ég. Þegar ég kem að Pennanum verður mér litið á dúkku sem situr á stól úti í búðarglugga. Hún starir á mig líkt og hundurinn. Straumur fer um mig. Hjartað herðir á sér, daufur verkur fyrir brjósti, grunn og ör öndun. Er komið að því? Var það þetta sem hundurinn sá? Ég verð að gera eitthvað. Hringja á sjúkrabíl? Nei, ég stend enn í lappirnar. Bíddu við, heilsugæslan í Firðinum! Hún er hérna rétt hjá. Ég hleyp af stað í átt að heilsugæslunni, hendist upp stigann í loftköstum alla leið á þriðju hæð.
"Hjálp!" öskra ég þegar inn er komið. "Ég er dauðvona."