Samvistir
Tuttugasti og fyrsti janúar. Laugardagur og þorri landsmanna gerir eitthvað annað en að vinna. "Að eta, það er sem þeir geta. En að að vinna, það er eitthvað minna," segir Kristín Jónsdóttir, íbúi í Stekkjarkinn Hafnarfirði. En hún er bara að djóka því hún algjör grínari.
Asahlákan er yfirstaðin og malbikið heilsar undan klakanum á stöku stað. "Það er ekki nokkur leið að labba á þessum andskota," segir Kristín hress í bragði við nágrannann er hún gengur út á hlað á slaginu ellefu með köttinn sinn í bandi. "Honum er ekki treystandi honum Mosa mínum," segir hún. "Hann stingur örugglega af, helvítið á honum. Ekkert nema vanþakklætið. Jæja, koddu nú Mosalingur."
Kristín og kötturinn Mosi ganga niður að Læknum og áfram inn á Strandgötu, helstu og bestu verslunargötu Hafnarfjarðar. "Djöfull er mér mál að skreppa inn í Litlu Listabúðina Mosi minn. Skundum inn!" segir hún við Mosa sem veitir þessum orðum litla athygli.
"Afsakið," segir afgreiðslukonan við Kristínu.
"Já, góðan og blessaðan. Mig vantar gjöf fyrir frænku mína. Hún má ekki kosta meira en fimm þúsund kall," segir Kristín við afgreiðslukonuna.
"Já, en..."
"Hvað með þessi kerti hérna, lykta þau vel?" segir Kristín og bendir á ilmkerti.
"Gæludýr eru ekki velkomin hérna," segir afgreiðslukonan ákveðin og alvarleg.
"Nú? Það er bara svona. Jæja, komdu Mosi minn. Við erum ekki velkomin hér," segir Kristín og gengur út.
"Alltaf sama sagan," tautar Kristín og gengur inn Gunnarssundið en þar býr Ólöf vinkona hennar. "Hún er kannski heima," segir Krstín við Mosa og hringir bjöllunni.
"Jæja, hvað segirðu Kristín mín?" segir Ólöf er þær setjast saman með kaffi við eldhúsborðið. "Hvernig hefur Stjáni það?"
"Hann er bara ekki góður. Ég get ekki sagt neitt annað því miður gamla mín," svarar Kristín.
"Hefur hann verið að taka lyfin sín?" spyr Ólöf.
"Ég veit það ekki, en örugglega ekki. Við tölum ekkert saman. Hann fer varla neitt fram úr rúminu. Ég er farinn að sofa bara í gamla herberginu hennar Soffíu. Ég veit bara ekkert hvað ég á að gera í þessu. Ef ég hefði ekki hann Mosaling hérna vissi ég heldur ekki hvað ég ætti að gera við sjálfa mig Ólöf mín."
Ólöf tekur um hendur Kristínar. "Við finnum eitthvað út úr þessu," segir hún við vinkonu sína.