Sígráir Febrúardagar

02/25/2019

Sígráir dagar febrúars líða í gegnum mig eins og jökulfljót. Ég stend í miðri bandarískri matvöruverslun. Vörutegundirnar skipta þúsundum en ég kaupi alltaf það sama. Ég er vanafastur maður.

Ég var vanur að draga andann heima á Íslandi. Stundum sakna ég þess, en í dag anda ég að mér lofti hemsins.

Heimsins sem batnandi fer. Heimsins sem er allur að hressast. Þar sem fólk skiptist á sögum og skiptist á hlutum, þvert yfir landamæri og menningarheima.

Eða hvað? Stormský stjórnmálanna hrannast upp og fólk skríður aftur ofan í skotgrafirnar.

Er lýðræðið og heimsvæðingin að bregðast skjólstæðingum sínum eða er þetta aðeins hiksti í vél sem þarf örlitla smurningu? Ég veit það ekki. Og ég veit ekki hvernig halda skal þessari vél í gangi. En eitt er víst: ef venjulegu viðhaldi er ekki sinnt endist vélin ekki langt.

Þetta er barnsleg einföldun á einhverju sem ég skil ekki. En mér er huggun í því að þú, kæri lesandi, skilur ekki neitt heldur. Jú, kannski sumt, svona smá. En heildarmyndin, hún er óljós. Því skulum við ekki stressa okkur of mikið. Ef þú ætlar að vera með einhvern æsing, þá skaltu bara hafa hann rólegan. 

Raggi
All rights reserved 2023 - allar ljósmyndir eru teknar af höfundi eða konu hans. Allur höfundarréttur á myndum og texta áskilinn.
Rafpóstur: larusson.ragnar hjá gmail.com 
Powered by Webnode
Create your website for free! This website was made with Webnode. Create your own for free today! Get started