Strætisvagn
Tuttugasti og fjórði janúar. Þriðjudagur. Fólk kemur og fólk fer. þannig er gangur strætóstöðva. Snemma morguns á strætóstöðinni Firði er þó flest fólk að fara. Það fer að afla tekna eða sækja nám í höfuðborginni, svona líklegast. Annars er það hið mesta prívatmál hvert fólk er að þvælast og ég reyni að skipta mér ekki að því.
Ég fíla Fjörðinn. Fjörðurinn er það sem kallað er tímajöfnunarstöð, einu nothæfu strætóstöðvarnar því enginn veit hvenær strætó kemur eða fer á öðrum stöðvum því enginn hefur leitt út tímajöfnuna fyrir þær stöðvar. Líkast til hið ómögulegasta verk.
Strætó númer eitt er sérlega strjálsetinn þennan morguninn. Einn og einn nemi, einn og einn útlendingur. Nemar og útlendingar, jafnvel útlenskir nemar. Þetta eru mest áberandi þjóðfélagshóparnir sem taka strætó, að minnsta kosti á þeim tímum sem ég þigg far. Ég er sjálf nemi og ég stefni á að ljúka minni strætónotkun um leið og fjárreiður duga til. Samkvæmt nýjustu áætlunum ætti það að raungerast vorið 2024.
Strætóinn rennur áleiðis til Reykjavíkur. Við Hraunbrún gengur inn kunnuglegur maður. Alræmdur og erfiður strætófarþegi. Líkurnar eru með mér því mörg eru sætin auð. En til öryggis loka ég augunum í örskotsstund og bið guð að veita mér frið frá manninum. Himnafaðirinn virðist heyra því hinn erfiði farþegi sest nokkrum sætaröðum fyrir aftan mig. Það er í sjálfu sér ásættanleg niðurstaða en þó þætti mér betra að hafa svona ólíkindatól í augsýn.
Strætó tekur af stað og maðurinn er til friðs. Önnur stöð er afgreidd og enn er hann stilltur. Ég þakka almættinu áheyrnina og það slaknar á taugunum. Líklega verður hann þægur. Hann er kannski þreyttur svona snemma dags.
Við Hamraborg stígur um borð ung kona með blátt hár og nefhring. Hún er í stuttu pilsi og hnéháum stígvélum. Okkar maður triggerast og byrjar sína predikun aftan úr vagninum.
"Heyrið Guðs orð! Þér konur, verið yðrum ektamönnum undirgefnar," Sagði maðurinn og virtist beina orðum sínum að konunni með bláa hárið. "Þeir sjá yðar skírlífu hegðan í ótta Drottins. Hvörra skart sé fólgið í því útvortis: í hárfléttum, fullskarti og dýrmætum búnaði, heldur í hjartans innvortis ásigkomulagi, í forgengilegu skarti hógværs og kyrrláts hugarfars sem dýrmæt er fyrir Guðs augliti."
Nei, nú hef fengið nóg. Þetta er of mikið svona snemma á þriðjudegi. Ég nenni þessu ekki. Ég sný mér við. "Nennirðu plís ekki, takk fyrir!" segi ég hátt og ákveðið.
Það kemur á manninn og hann sest niður og þegir. Ég vissi að ég hefði ekki átt að biðja guð um hjálp. Betra að treysta á sjálfa sig.