Teppahreinsun Guðlaugs

01/21/2023

Nítjándi janúar og dagurinn er sá fimmti vikunnar og fólkið sem spáir í veður spáir asahláku á morgun. En hún Björg okkar Sigfúsdóttir, hún spáir ekki í veður en hún spáir í margt annað. Hún til dæmis spáir í að fara drulla sér í vinnuna. Drulla sér í afgreiðsluna á Teppahreinsun Guðlaugs, "Hrein teppi í 40 ár!" Pawel og Björg eru einu starfsmenn Teppahreinsunar Guðlaugs, að frátöldum Ólafi Guðlaugssyni framkvæmdastjóra og einkasyni Guðlaugs Ólafssonar teppahreinsunarfrumkvöðuls Hafnarfjarðar. Sá gamli lést fyrir tíu árum. Sögur segja að hann liggi innvafinn í tandurhreint teppi ofan í gröf sinni.

Ólafur framkvæmdastjóri endar morgunfund "teppateymisins" á orðunum "hrein teppi, hreint líf. Áfram Ísland!" og Pawel deyr ögn inní sér en Björg okkar tendrast öll og skoppar glöð fram í afgreiðslu.

Þennan fimmtudaginn þurfa fáir teppin sín hrein framan af morgni en upp úr klukkan ellefu snýst taflið við og inn gengur ofurhávaxin ung kona með biksvart hár og blá augu.

"Góðan daginn. Ég þarf að ná stórum blóðblettum úr hvítu teppi fyrir morgundaginn," segir konan við Björgu.

Björg, fagmaðurinn sem hún er, lætur ekki slá sig út af laginu og svarar um hæl; "Við skulum sjá hvað við getum gert fyrir þig. Gæti ég fengið að sjá teppið?"

Hávaxna konan gengur rakleiðis út án þess að segja orð. Björg kallar á Pawel Baranowski og Ólaf Guðlaugsson.

Sú hávaxna snýr aftur inn með upprúllað risavaxið hvítt teppi, skellir því á gólfið og rúllar því fram. Blóðblettirnir blasa við, ekki stórir en margir og á víð og dreif um allt teppið. "Þið eruð kannski forvitin?" spyr hún.

"Við spyrjum ekki spurninga hér, við hreinsum bara teppi." Svarar Ólafur.

"Hvað gerðist?" spyr Pawel.

"Hvolpurinn okkar glefsaði í eyrað á manninum mínum á nýársmorgun og það blæddi svona rosalega úr því," segir konan. "Og hann fór upp á læknavakt þar sem maður dó við hliðina á honum á biðstofunni," heldur hún áfram.

"Já er það? Það er ekki gott," segir Björg.

"Þú mátt hugga þig við það," segir Ólafur Guðlaugsson, "að teppið er hið minnsta í öruggum höndum og kemur til þín tandurhreint í fyrramálið."

Pawel Baranowski rúllar upp teppinu og fer með það inn.

Raggi
All rights reserved 2023 - allar ljósmyndir eru teknar af höfundi eða konu hans. Allur höfundarréttur á myndum og texta áskilinn.
Rafpóstur: larusson.ragnar hjá gmail.com 
Powered by Webnode
Create your website for free! This website was made with Webnode. Create your own for free today! Get started