Þuríður og veran í Ozspolsísí 3

"Hver ertu?" spurði Þuríður veruna.
"Ég er ég, eða hvað áttu annars við?" spurði veran á móti.
"Ég á við, hvað heitirðu?"
"Ég ber ekkert nafn. Við Kúlogisar merkjum okkur á annan hátt en þið," svaraði veran.
"Ég skil. Þið aðgreinið ykkur kannski ekki í sundur sem einstaklinga heldur eruð ein stór heild," sagði Þuríður.
"Nei, við erum samansafn einstaklinga, rétt eins og þið. Í raun erum við sjálfstæðari og einstaklingsmiðaðri en gerist og gengur í samfélögum manna."
"Já er það segirðu, hvernig veistu hversu einstaklingsmiðuð við erum? Og hvar lærðirðu íslensku?" spurði Þuríður.
"Við hökkuðum okkur inn í tölvuna þína," svaraði veran.
"Auðvitað," sagði Þuríður. "Þú lítur ekki út eins og Kúlogisi."
"Ég var valinn til að hafa samband við þig," sagði veran, eða öllu heldur Kúlogisinn. "Við fáum stundum gesti eins og þig og þá er einn af okkur valinn til að taka á móti honum og fá hann til að hverfa á braut sem fyrst. Ekki taka því persónulega. Við reynum að vera vinveittir og tökum á okkur form gesta okkar eins og þú sérð, þó svo við gætum eflaust gert betur hvað það varðar."
"Það er hugurinn sem gildir," sagði Þuríður. "Þið getið huggað ykkur við það að ég á far aftur heim eftir um það bil tvo jarðsólarhringa frá Ozspolsísí eitt."
"Ozspolsísí. Ekki Ozspolsísí eitt. Það er enginn sem kallar Ozspolsísí, Ozspolsísí eitt," leiðrétti Kúlogisinn.
"Afsakið. Ég meinti Ozspolsísí. Getur þú komið mér frá Ozspolsísí 3 til Ozspolsísí fyrir þann tíma," sagði Þuríður.
"Auðvitað!" svaraði Kúlogisinn.