Vitvélar og Vetrarhörkur

02/01/2019

Göturnar eru salthvítar og ellefu gráður af frosti rífa í kinnbeinin. Ferð minni er heitið á fremstu vígstöðvar nútímans, í glerbyggingu sem stendur við bakka Charles ár hér í Cambridge. Fyrir utan er skilti sem á stendur "Microsoft", en það er kompaní sem margir þekkja. Ég hundsa svo annað skilti sem sem segir mér að nota hringhurðina og geng beinustu leið í gegnum hefðbundnar dyr við hliðina á. Ég er í þannig stuði. Þetta var mín uppreisn þennan daginn, og læt ég hana nægja í bili.

Ég er kominn til að hlusta á pallborðsumræður nokkurra spekinga á sviði gervigreindar og vitvéla. Þetta eru allt framafólk í atvinnulífinu. Fjórar mannsekjur, og tvær af þeim hugsanlega yngri en ég sjálfur. Ég fæ kvíðakast við tilhugsunina.

Áður en gamnið hefst sest er boðið uppá veitingar og ég sest með pastað mitt við borð eitt þar sem fyrir situr kona á sjötugsaldri, svona á að giska. Ég tek hana tali. Hún heitir Díana. 

Díana er frá Manhattan en hefur búið hér í Cambridge í áraraðir, eða síðan hún útskrifaðist frá MIT og Harvard (tveir af frægustu skólum heims). Hún passar þó ekki í þá staðalímynd sem ég þekki af slíkum einhyrningum. Díana er íturvaxin blökkukona í rauðri hettupeysu, með langt sítt hár í einni þykkri fléttu. En einmitt vegna þessarar andstöðu sem útlit hennar er við staðalímyndir er henni annt um fjölbreytni í tæknigeiranum. Hún segir mér frá vinnu sinni við að lokka fjölbreyttari flóru mannfólks að þessum geira. Ekki endilega vegna þess að það sé "pólitískt rétt" heldur vegna þess að það er gott fyrir bisnessinn. Gott fyrir "the bottom line" (kanar tala oft um þessa línu botnsins og mikilvægi hennar).

Díana færði góð rök fyrir því að fjölbreytni skipti miklu fyrir afkomu fyrirtækjanna. Betur sjá augu en auga og ef þú villt ná ólíkum fiskum í net þitt þá er gott að hafa ólíka fiska í áhöfn bátsins. (samlíking sem virkar hugsanlega ekki mjög vel í alvöru bátum).

Díana er dóttir innflytjanda frá "eyjunum" (e. the islands). Ég spyr hvaða eyjum. Hún á við hinar Bandarísku Jómfrúaeyjar, þ.a. ef maður er "úr eyjum" hér vestra, þá er greinilega átt við þessar eyjar, ef marka má hana Díönu. Faðir hennar vann myrkranna á milli við leigubílaakstur á sínum fyrstu árum í New York og safnaði nóg til þess að koma á laggirnar fjölskylduveitingastað. Hann sá fyrir fjölskyldu sem veitti Díönu þann stuðning sem hún þurfti til að ná langt í Bandarísku samfélagi. Hún mætti þó sínu skammti af mótstöðu og neikvæðri orku. Sem dæmi sagði námsráðgjafi henni, þegar hún var aðeins sextán vetra, að hún ætti aldrei eftir að komast inn í MIT. Þrátt fyrir þetta vann hún sjálf myrkranna á milli rétt eins og faðir sinn forðum og náði markmiðum sínum. Hún er holdgervingur hins ameríska draums. En hún segist vera heppin. Hún fékk stuðning frá fólki sem stóð henni næst. Það eru forréttindi sem ekki allir njóta.

Díana skrapp líka til Íslands fyrir um fjórtán árum. Áður en flóðgáttir túrismans opnuðust upp á gátt. Henni líkaði dvölin vel og hún hafði orð á því hversu heilbrigðir Íslendingar litu út. Vel tenntir líka. Hún tók eftir þessu því að hér í Bandaríkjunum, ríkasta landi heims, hefur fólk mjög misjafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu, og það sést. 

Ég þakka Díönu fyrir að deila sögu sinni og fyrir hrós í garð okkar frónverja.

En hvað um það. Sei sei já. Gervigreind og vitvélar.

Ég nenni eiginlega ekki að skrifa mikið um hvað þetta merka gervigreindarfólk hafði að segja. Það helsta sem ég tek frá þessum pallborðsumræðum er að gervigreind er ekki sérstaklega greind. Gervigreind og vitvélar dagsins í dag eru ekki mikið annað en reiknikúnstir tölfræðilíkanna sem beitt er á alls konar gagnasöfn. Þessi líkön geta svo spáð fyrir um alls kyns útkomur og gert sniðugar og gagnlegar greiningar á gögnum eins og t.d. texta ýmiss konar, myndum, hljóð og myndbrotum, eða tölvupóstum svo mjög fátt eitt sé nefnt. Það er langt í land að þessi líkön vakni til lífsins og hneppi mannkyn í þrældóm.

Við getum slakað á krakkar.

Í bili..... 

Stemningin var svellköld á leið minni heim.
Stemningin var svellköld á leið minni heim.
Raggi
All rights reserved 2023 - allar ljósmyndir eru teknar af höfundi eða konu hans. Allur höfundarréttur á myndum og texta áskilinn.
Rafpóstur: larusson.ragnar hjá gmail.com 
Powered by Webnode
Create your website for free! This website was made with Webnode. Create your own for free today! Get started